Steinar Friðgeirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri RARIK Orkuþróunar ehf.

Steinar var framkvæmdastjóri tæknisviðs Rafmagnsveitna ríkisins (RARIK) 1984-2003 og þróunarsviðs 2004-2008. Hann hefur m.a. setið í nefndum á vegum SÍR, Samorku, NORDEL, UNIPEDE og Eurelectric. Hann lauk námi í raforkuverkfræði frá NTH í Þrándheimi 1973.

Steinar var formaður Verkfræðingafélags Íslands 2003-2007 en á árunum 2000-2001 var hann umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi.

Í tilkynningu frá RARIK segir að meginmarkmiðið með stofnun félagsins er að tryggja áframhaldandi vöxt og verðmætasköpun innan RARIK samstæðunnar. „Mikilvægt markmið er einnig að skapa vettvang erlendis fyrir starfsmenn samstæðunnar svo og aðra íslenska sérfræðinga og stuðla þannig að útflutningi þekkingar á orkumálum og nýtingu umhverfisvænna orkulinda," segir í tilkynningunni.