Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, segir ómögulegt að segja til um hve mikið muni fást upp í kröfur í þrotabú Kaupþings. Það muni ekki skýrast fyrr en kröfulýsingarfrestur rennur út 30. desember nk.

Bloomberg fréttaveitan hélt því fram í frétt sinni í vikunni að kröfuhafarnir myndu fá um 20% af því sem þeir ættu hjá bankanum.

Steinar Þór segir að sú prósenta hafi ekki verið hjá sér fengin. Líklega hafi þar verið miðað við tölur frá bankanum í nóvember sl., þar sem virði eigna og skuldir eru áætlaðar. Það séu með öðrum orðum gamlar tölur.

Hann segir að síðan þá hafi virði eigna bankans aukist. Þá sé, sem fyrr sagði, ekki hægt að meta skuldirnar fyrr en kröfulýsingarfresturinn renni út.

„Óvissuþættirnir eru því margir," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.