Steinar Þór Guðgeirsson hæstaréttarlögmaður hefur tekið sæti í stjórn stórs hluta þeirra félaga sem ríkissjóður hefur eignast hlut í vegna stöðugleikaframlaga föllnu bankanna þriggja. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins situr hann í þessum stjórnum í umboði ríkissjóðs.

Um er að ræða félögin Klakka, ALMC Eignarhaldsfélag, S-Holding, SCM ehf. og SAT Eignarhaldsfélag.

Steinar Þór sat í skilanefnd Kaupþings þar til slitastjórn tók við rekstri slitabúsins. Árið 2013 var hann ráðinn sem ráðgjafi Fjármála- og efnahagsráðuneytisins í málefnum tengdum nauðasamningum gömlu bankanna og afnámi fjármagnshafta. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Steinar Þór komið að móttöku þeirra eigna sem í hlut ríkissjóðs hafa runnið og situr hann í áðurnefndum stjórnum í umboði ríkissjóðs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .