Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stakk upp á því við þá Steingrím J. Sigfússon, þingmann VG og fyrrverandi formann flokksins og fyrrverandi ráðherra í síðustu ríkisstjórn, og Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar, að þeir tilnefni orðin auðlegðarskattur og skattur sem fegurstu orð íslenskrar tungu. Hugvísindasvið Háskóla Íslands stendur að leitinni að fegursta orðinu.

Vilhjálmur lagði þetta til í fyrstu umræðu um tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár á Alþingi.

Steingrímur svaraði Vilhjálmi því til að það sama gildi um orðið auðlegðarskattur og mörg orð í íslensku.

„Það er svo tært eins og gjarnan er nú talið er öndvegismerki íslenskrar tungu. Og það gerir auðlegðarskatturinn. Hann er skattur á auðlegð, raunverulegan auð,“ sagði Steingrímur en bætti við að þrátt fyrir allt efist hann um að orðið muni skora hátt í samkeppninni um fallegasta orð íslenskrar tungu.

„Ég nefni bara út úr kolli mínum hér orðið fjallamjólk. Af hverju er það ekki bara fallegasta orð íslenskrar tungu? Eða þess vegna orðið Þistilfjörður,“ sagði Steingrímur en hann ólst einmitt upp á bænum Gunnarsstöðum í Þistilfirði.