Það hefur ekki  verið dregið á lánalínur frá Norðurlöndunum og Pólllandi eftir þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort dregið verði á lánin.

„Það er ekki komið að því ennþá og við höfum ekki óskað eftir lánunum né tilkynnt í hvaða mæli við óskum eftir að draga á þau. Við höfum nægan tíma til þess og það stendur opið á milli endurskoðanna,“ segir Steingrímur.

Í yfirlýsingum Seðlabankans og stjórnvalda í kjölfar þriðju endurskoðunar efnahagsáætlunar stjórnvalda og AGS segir að gert sé ráð fyrir að lánafyrirgreiðslur frá Norðurlöndunum og Pólllandi séu til reiðu. Þriðja endurskoðun fór fram í lok september sl.

„Lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum kemur alltaf í beinu framhaldi af endurskoðun. Eftir þriðju endurskoðun býðst annar skammtur af pólska láninu og einnig frá Norðurlöndunum. Þetta verður alveg eins og eftir fyrstu og aðra endurskoðun. Við tökum okkar tíma til að skoða hvað þarf, það gera Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið sameiginlega. Það er ekki komið á ákvörðunarstig ennþá,“ segir Steingrímur í samtali við Viðskiptablaðið.