„Það þýðir ekkert að selja mér einhverja vúdú-hagfræði að tekjur muni aukast þótt maður lækki þær. Við teljum mikilvægt að við ræðum þessi mál heilstætt. Ég held að ráðherra hljóti að fagna því að geta geta gert grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin sér heildarmyndina í ríkisfjármálum fyrir sér,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fyrrverandi atvinnuvegaráðherra. Hann hefur farið fram á sérstakar umræður um áherslur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum á Alþingi klukkan 14 í dag. Til andsvara er Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann fær lengri tíma til andsvara en venja er, einn og hálfan tíma í stað hálftíma. Beðið var um umræðuna stuttu eftir að þing kom saman fyrir rúmri viku.

Steingrímur segir nýja ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa boðið lækkun tekna, s.s. í formi skattalækkana, án þess að annað hafi komið í staðinn. „Það er er því miður staðan“ segir hann og leggur áherslu á að ríkisstjórnin leggi öll spil á borðið í ríkisfjármálum, s.s. því hvaða fleiri skatta og gjöld eigi að lækka og hvaða komi í staðinn.

Ráðherrar hafa m.a. boðað að auðlegðarskatturinn muni renna sitt skeið og sérstöku veiðigjaldi verði breytt.

„Ég mun spyrja hann um það, hvort fleiri frumvörp eru væntanleg sem munu hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs, þá hvernig og hvernig heildarmyndin lítur út. Það er ekkert lítið í húfi að maður fari út af sporinu í ríkisfjármálunum og leiði til aukins halla á ríkissjóði á þessu ári og enn þá meiri erfiðleika við að koma saman fjárlagafrumvarpi með afgangi fyrir næsta ár.  Þetta eru engin geimvísindi, tekjur og gjöld.