Steingrímur J. Sigfússon gegnir nú stöðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og efnahags- og viðskiptaráðherra auk þess að vera starfandi iðnaðarráðherra. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir þarf að bregða sér af bæ er hann til viðbótar starfandi forsætisráðherra.

Samkvæmt gamla skipulaginu er Steingrímur því raunar sexfaldur ráðherra þegar mest lætur. Steingrímur tók í gær við starfi iðnaðarraðherra af Oddnýju G. Harðardóttur. Bæði leysa þau Katrínu Júlíusdóttur af á meðan hún er í fæðingarorlofi.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur undirritað forsetaúrskurði um breytingar á ráðuneytum. Breytingarnar taka gildi 4. september næstkomandi. Steingrímur hefur því nú umboð til að vinna að stofnun nýs atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis. Miðað við gamla skipulagið heyra þar undir hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis auk efnahags- og viðskiptaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Eftir breytingarnar verða ráðherrar átta talsins.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Steingrími að nú hefjist undirbúningur fyrir nýja ráðuneytið. „Það verður líklegast í sjávarútvegshúsinu, það er stærsta húsið og þar er þegar svolítið laust húsnæði,“ segir Steingrímur. Hann segir jafnframt viðbúið að það fækki í efsta lagi ráðuneytanna, þ.e.a.s. hjá ráðuneytis- og skrifstofustjórum. Öllum starfsmönnum verða þó boðin störf.