Hæstiréttur sýknað í dag Íslandsbanka af kröfu Steingríms Wernersson um greiðslu 400 milljóna vegna millifærslu af reikningi hans inn á reikning Milestone. Hæstiréttur sneri þar með við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði dæmt bankann til að greiða Steingrími kröfuna.

Steingrímur seldi hlutabréf í Glitni í maí 2006 upp á tæpar 400 milljónir. Þessi sama upphæð var síðan millifærð af reikningi Steingríms í Glitni yfir á reikning Milestone sem var þá að hluta til í eigu Steingríms. Íslandsbanki hélt því fram að millifærslan hefði verið hluti af greiðslu vegna kaupa Milestone á þriðjungshlut í Sjóvá-Almennum.

Steingrímur kannaðist  ekki við að hafa gefið heimild fyrir millifærslunni og taldi sig því eiga kröfu á bankann vegna þessarar millifærslu. Íslandsbanki taldi millifærsluna aftur á móti hafa verið gerða með vitneskju og heimild frá Steingrími. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði komist að þeirri niðurstöððu að ekki hefði verið sýnt fram á að Steingrímur hafi gefið heimild fyrir millifærslunni.

Hæstiréttur taldi aftur á móti ljóst að þessar 400 milljónir sem færðar voru af reikningnum hefðu hvorki getað verið hluti innstæðu tékkareiknings hans á tímamarki framsals né talist til skuldbindinga vegna hennar. Gæti Steingrímur því ekki átt kröfu á hendur Íslandsbanka um greiðslu fjárhæðarinnar á þeim grundvelli að hún hefði verið innstæða sem Íslandsbanki hefði tekið yfir og bæri að standa skil á um leið og Íslandsbanki tók yfir skuldbindingar af Glitni þegar FME tók yfir stjórn Glitnis. Þá hefði Steingrímur ekki leitt að því haldbær rök að Í hf. hefði með samningi eða á annan hátt skuldbundið sig til greiðslu kröfunnar.