Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna (VG), fékk í dag umboð þingflokks VG til að „leysa mál“ Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Hvað það þýðir á eftir að koma í ljós en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stendur til að svipta Jón ráðherrastól og skipa nýjan ráðherra á næstu dögum.

Eins og fram kom í gær olli það miklu uppnámi á stjórnarheimilinu að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skyldi birtan á vef sínum vinnuskjöl er tengjast gerð nýs frumvarps um stjórn fiskveiða, svokallaða kvótafrumvarp.

Mikið hefur verið rætt um kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar en sjávarútvegsráðherra lagði fram fyrr á þessu ári frumvarp um breytingu á stjórn fiskveiða. Það frumvarp naut ekki stuðnings meirihluta þingsins.

Vinnuhópur innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hefur undanfarið unnið að gerð nýs frumvarps. Ráðuneytið birt sem fyrr segir drög að nýju frumvarpi á vef sínum fyrir helgi. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, gagnrýndi Jón Bjarnason harkalega í fjölmiðlunum nú um helgina og sagði vinnubrögð hans óásættanleg. Þá ákvað ríkisstjórnin fyrir helgi að taka málið af Jóni og skipaði um leið ráðherranefnd til að fara yfir málið. Hana skipa þau Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Jón Bjarnason svaraði Jóhönnu með yfirlýsingu í gærkvöldi og sagði ráðuneyti sitt hafa birt vinnuskjöl í „anda opinnar stjórnsýslu og þess gagnsæis sem mælt er fyrir um í yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar,“ eins og það var orðað í yfirlýsingu Jóns.

Þingflokkar Samfylkingarinnar og VG funduðu í sitthvoru lagi í dag. Vitað er að mikil óánægja er með Jón innan þingflokks Samfylkingarinnar en þingflokkur VG er klofinn í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld voru hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Steingrímur J. Sigfússon tilbúin að lýsa yfir stuðningi við Jón. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var mikið tekist á um málið á þingflokki VG í dag og svo fór að Steingrímur J. fékk umboð til að leysa málið, eins og heimildarmenn Viðskiptablaðsins orða það.