„Fjölmargir hagvísar úr ólíkum áttum staðfesta að batinn og forsendur hans eru traustari en margir hafa talið allt til þessa. Þar með dregur úr óvissu. Aukinn stöðugleiki er því að mínu mati að færast yfir þjóðlífið. Tal um mikla óvissu nú er því sérkennilegt þegar hagtölur eru skoðaðar og sérstaklega þegar litið er til baka og haft í huga út úr hvaða aðstæðum við erum hægt og bítandi að vinna okkur. Óvissan um þróun mála í Evrópu og heimsbúskapnum er helsta áhyggjuefnið nú um stundir. Við það fáum við Íslendingar hins vegar litlu ráðið," segir Steingrímur J. Sigfússon í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Þar fer hann yfir ýmsar hagtölur sem gefa vísbendingar um hvert stefnir á Íslandi. Má þar nefna atvinnuleysistölur, aflaverðmæti skipa, þróun verðbólgunnar og krónunnar.

„Allt þetta bendir til þess að umsvif og afkoma í sjávarútvegi geti orðið mjög góð á yfirstandandi ári. Þrátt fyrir óvissu á erlendum mörkuðum hefur afurðaverð á heildina litið haldist hátt. Nýleg ráðgjöf Hafró um helstu nytjastofna gefur vísbendingar um að næstu ár verði gjöful fyrir sjávarútveginn," skrifar Steingrímur.