Þrátt fyrir að erlendir kröfuhafar eignist Kaupþing og Íslandsbanka verður þörf á fyrirhuguðu eignarumsýslufélagi ríkisins.

Þetta sagði Steingrímur á blaðamannafundi í morgun sem haldinn var í kjölfar samkomulags milli stjórnvalda og skilanefnda gömlu bankanna, fyrir hönd kröfuhafa þeirra, um uppgjör vegna skiptingar eigna milli gömlu og nýju bankanna.

Nú þegar eiga annars vegar ríkisbankarnir og hins vegar skilanefndir gömlu bankanna talsverðan hlut í íslenskum fyrirtækjum. Þegar nýju bankarnir færast á hendur kröfuhafa gömlu bankanna fara eignir þeirra að sjálfssögðu með og þannig minnka þær eignir sem ríkið á með óbeinum hætti.

Steingrímur sagði að þrátt fyrir þetta væri enn þörf á eignarumsýslufélagi. Hann sagði að með því að færa ríkisbankana í hendur kröfuhafa gömlu bankanna skapaðist trúverðugleiki út á við gagnvart erlendum aðilum. Hins vegar væri ljóst að ríkið með eignarumsýslufélagi í eigu ríkisins væri nauðsynlegt og það félag myndi halda á þeim eignum sem ríkið kynni að taka yfir.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis sagðist þó vona að fyrirhugað félag hefði sem minnst að gera. Hann sagði að réttara væri að þeir kröfuhafa sem ættu kröfur á félög tækju þau yfir en ekki ríkið. Ef kröfuhafarnir væru bankarnir gæfi augaleið að það væru bankarnir sem myndu halda á hlutum fyrirtækjanna.