„Ég er kominn fram yfir þann tíma sem ég tel heppilegt að sitja í þessu starfi,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. Hann tilkynnti um helgina að hann ætli ekki að bjóða sig fram til formanns eftir að hafa gegnt stöðunni síðastliðin 14 ár. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður VG, lýsti því yfir i gær að hún ætlaði að bjóða sig frram sem næsti formaður flokksins.

Steingrímur sat fyrir svörum í morgunútvarpi Rásar 2 í Ríkisútvarpinu í morgun. Hann var m.a. spurður að því hversu langt sé síðan hann hafi ákveðið að hætta sem formaður enda stutt síðan hann hafi haldið öðru fram.

Steingrímur svaraði því til að á meðan hann er formaður gefi hann sig í það. Hann hafi fyrir um hálfum mánuði eða tíu dögum ákveðið að fara ekki aftur fram sem formaður VG en viljað ræða við samherja sín. Nú sé góður tími til að hætta, að hans sögn.

Katrín Jakobsdóttir sagði í samtali við vb.is i gær að Steingrímur hafi rætt við sig áður en hann tilkynnti ákvörðun sína opinberlega og hafi hún haft tvo til þrjá daga til að ákveða hvort hún ætlaði að bjóða sig fram.