Álver á Bakka við Húsavík er ekki í myndinni segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna. Engar ákvarðanir verði teknar um framvindu mála þar í tíð núverandi ríkisstjórnar.

„Ég held að það séu ört dvínandi líkur á því að það verkefni fari af stað hvort eð er á næstunni,“ segir hann enn fremur í samtali við Viðskiptablaðið.

Í verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar segir að engin ný áform um álver verði á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Þegar hann er spurður hvernig skilja megi þetta svarar hann:

„Þetta er í mínum huga algjörlega einfalt og okkar sem gengu frá þessu orðalagi í stjórnarmyndunarviðræðunum. Það er einfaldlega dregin lína. Við horfumst í augu við það sem búið er að ákveða, þ.e. séu öll tilskilin leyfi til staðar og allt komið í gang þá verður það ekki aftur tekið. Engar nýjar ákvarðanir um frekari uppbyggingu verða hins vegar teknar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ef einhverjir kæmu núna og segðust vilja skrifa undir á morgun um nýjar framkvæmdir við álver þá myndi ekkert verða af því í tíð þessarar ríkisstjórnar.“

Nánar er rætt við Steingrím J. Sigfússon í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.