„Þetta á eftir að versna áður en það verður betra," er haft eftir Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í danska vefmiðlinum borsen.dk í dag.

Hann bætir því við að Íslendingar fari nú fyrir alvöru að finna fyrir kreppunni.

Í viðtalinu segir Steingrímur að búast megi við erfiðum vetri með enn meira atvinnuleysi. „En eftir það verður það versta afstaðið," segir hann.

Blaðamaðurinn, Casper Fruergaard Schrøder, lýsir því í upphafi greinarinnar að mannlífið á götum Reykjavíkurborgar beri þess ekki merki að kreppa ríki í landinu. „Lífið gengur sinn vanagang," skrifar hann.

Steingrímur tekur undir það í viðtalinu. „Kannski höfum við ekki enn að fullu fundið fyrir afleiðingum kreppunnar," segir fjármálaráðherrann íslenski. „Margir hafa þó áhyggjur af framtíðinni. Því lengur sem niðursveiflan varir því verri verður hún."

Hann bætir því hins vegar við að Íslendingar spjari sig og aðlagist ástandinu.

Greint er frá því í greininni að atvinnuleysið á Íslandi sé nú 8,5% og að það hafi aldrei mælst hærra. Til samanburðar sé það 3,5%  í Danmörku.

Því má bæta við að sérfræðingar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins sögðu í maí er þjóðhagsspá þeirra var kynnt að mögulega væri það versta í íslensku efnahagslífi að baki og að horfur gætu verið orðnar talsvert betri um næstu áramót.

Sjá grein borsen.dk hér.