Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra hefur ritað þeim Magnúsi Gunnarssyni, formanni bankaráðs Nýja Kaupþings og Vali Valssyni, formanni bankaráðs Nýja Glitnis þar sem hann fer þess á leit við þá að þeir sitji áfram sem formenn bankaráðanna, í það minnsta fram yfir aðalfund sem að öllum líkindum verður haldinn í apríl.

Þetta staðfestir Steingrímur í samtali við Viðskiptablaðið en eins og áður kom fram í dag rituðu þeir Magnús og Valur sameiginlegt bréf til fjármálaráðherra þar sem þeir óskuðu þess að láta af störfum.

Í bréfi þeirra Magnúsar og Vals kom fram að vilji væri til þess meðal stjórnaflokkanna að gera breytingar á bankaráðum bankanna og síðast í gær hefði forsætisráðherra lýst því yfir á Alþingi.

Þá sagði Valur í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í dag að hann hefði með afsögn sinni aðeins viljað gefa stjórnvöldum svigrúm til að gera breytingar.

Steingrímur segir að hann hefði ekki þrýst á bankaráðsformennina að segja af sér, þeir hafi boðið upp á það sjálfir. Hann hafi hins vegar, eins og fyrr segir, beðið þá um að endurskoða þá ákvörðun sína og sitja áfram. Hann segist hafa átt fund með þeim fyrir helgi þar sem farið var yfir stöðu mála en ekki rætt hvort breytingar yrðu gerðar á bankaráðunum.