Þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til í kjölfar efnahagshruns og komu í veg fyrir þjóðargjaldþrot ættu að geta nýst ráðamönnum á evrusvæðinu í glímu þeirra við skuldavanda myntsvæðisins. Þetta er inntak greinar Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í breska viðskiptadagblaðinu Financial Times í gær. Hann segir neyðarlögin hafa skilað meiru en hefðbundin innstæðutrygging í bankakerfinu.

Í greininni fer Steingrímur yfir hrunið hér og gengisfallið og bendir m.a. á að það hafi ekki verið spurning um það hvort heldur hvenær landið færi í þrot. Hann rifjar m.a. upp að bankarnir hafi farið á hliðina á einni viku, krónan hrunið um 40% gagnvart evru og bæði verðbólga og stýrivextir skrúfast upp í 18%. Við þetta hafi atvinnuleysi farið úr næstum því engu í tæp 10% og lífskjör dregist hratt saman.

Stjórnvöld hafi brugðist hratt við og gripið til aðgerða með það fyrir augum að auka tekjur ríkissjóðs og draga úr halla á fjárlögum. Þessar aðgerðir voru ekki líklegar til að fara vel í landsmenn. Þær voru hins vegar nauðsynlegar, skrifar Steingrímur sem bendir á að árangur þeirra hafi opnað stjórnvöldum dyr á alþjóðlega skuldabréfamarkaði.

Fyrirmynd fyrir evrusvæðið

Steingrímur segir aðrar Evrópuþjóðir geta lært af viðbrögðum stjórnvalda hér eftir hrun, ekki síst því að bönkunum hafi ekki verið komið til hjálpar á sínum tíma heldur þeim skipt upp og nýir reistir á grunni þeirra gömlu. Þetta var mikilvægur liður í endurreisnarferlinu hér, skrifar Steingrímur og bendir á að bankabjörgun hefði aukið kostnaðinn við hrunið verulega.

Steingrímur kemur jafnframt inn á neyðarlögin í grein sinni og bendir á að þau hafi skipt sköpum. Með þeim hafi röð kröfuhafa verið breytt og skuldabréfaeigendur og aðrir lánardrottnar gömlu bankanna færðir skör neðar en eigendur innstæðna í bönkunum. Það hafi hafi flýtt ferlinu til muna, að hans mati.