Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði þarft og gott að Samtök atvinnulífsins létu gera skýrslu um skattamál frá sínum sjónarhóli. Skattar væru samt nauðsynlegir og sagði hann að ýmsar ranghugmyndir hafi litað skattaumræðuna undanfarin misseri.

Sagði hann að af forstöðumönnum SA hafi því m.a. verið haldið fram að ríkistjórnin hafi staðið fyrir gríðarlegum skattahækkunum og aðlögun í ríkisfjármálum hafi fyrst og fremst farið fram á skattahliðinni.

„Hvað er hæft í þessu máli þegar ýmsar staðreyndir eru skoðaðar. Í stuttu máli sagt ekki neitt. Þegar þessi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum og greip til sinna fyrstu ráðstafanna í ríkisfjármálunum á miðju síðasta ári, þá stefndi í að halli á frumjöfnuði ríkissjóðs, þ.e. halli á rekstrinum án hinnar miklu nýju vaxtabirgði yrði um 9% af vergri landsframleiðslu. Það var glæsileg aðkoma eða hitt þó heldur.”

En hver er staðan nú, einu og hálfu ári síðar. Jú hún er sú að við gerum ráð fyrir að halli á frumjöfnuði verði 2,2% af vergri landsframleiðslu. Hann hafi þá sem sagt lagast um 6,8%. Og hvernig hefur það gerst þegar það er bara mælt? Jú skattar hafa vissulega hækkað og það hefur dugað til að rúmlega halda í horfinu með þá hlið. Og þeir gefa nú um 2,3% í viðbót af vergri landsframleiðslu frá því sem þarna var. En á sama tíma hafa frumgjöld ríkissjóðs, þ.e. útgjöldin án vaxtakostnaðar, lækkað um 4,5%. Þannig hefur lækkun ríkisútgjalda borið uppi um tvo þriðju hluta aðhaldsaðgerðanna og tekjurnar um þriðjung.

Gangi þau áform eftir sem munu birtast innan fárra daga í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 og með þeim mjög hóflegu skattabreytingum sem þar eru á ferðinni og þungu aðlögun á gjaldahlið, þá verður aðlögunin á frumjöfnuði orðin nálægt níu og hálft prósent og 78% hennar með gjaldlækkun og 22% með tekjubreytingum.”

Sýndi Steingrímur línurit máli sínu til stuðnings og sagði ræðuna um skattpíningar vera ranga.

„Skatttekjur ríkisins á árinu 2010 og eftir þær breytingar sem áætlað er að gera á árinu 2011 verða þá um 25,8% af vergri landsframleiðslu. Þetta er langt um lægra hlutfall en það var á árunum fyrir hrun, t.d. á árunum  2005 til 2007 þegar það var um 6,4 prósentustigum hærra eða að meðaltali um rúmlega 32%. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt neitt talað þá um sérstaka skattpíningu.”