Ef menn eyða of miklu þá endar það alltaf illa. Þá skiptir engu máli hvort menn eyða of miklu í krónum, dollurum eða evrum.

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á fundi Viðskiptaráðs og fastanefndar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi um sjálfstæðar myntir í fjármálakreppu.

Hann sagði að ekki væri hægt að kenna íslensku krónunni einni um því hvernig komið væri fyrir í dag. Vandamálið væri stærra en svo og ef menn telji að hér hefði verið nauðsynlegt að vera með evru þá hefði Ísland þurft að hafa gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru fyrir 4-6 árum.

Hann sagði þó ómögulegt að tala um stjórnmál í þálagatíð, þ.e. hvað hefði getað orðið ef aðstæður hefðu verið öðruvísi.

„Mér leiðist þetta tal um að valið standið milli fortíðar og framtíðar,“ sagði Steingrímur.

Þá sagði Steingrímur að aðrar þjóðir, með mun sterkari gjaldmiðla en íslensku krónuna, væru einnig að lenda í vandræðum. Nauðsynlegt væri að fylgjast með þróuninni í stórum ríkjum í kringum okkur, bæði efnahagslegum aðstæðum og gjaldeyrismálum.

Skuldir hverfa ekki með pennastriki

Steingrímur J. sagði að engin ein stór töfralausn væri út úr þeim vandamálum sem að þjóðinni steðja í efnahagsmálum. Enduruppbyggingin er samansafn ýmissa þátta sem þurfa að vera í lagi og að þeim þarf að vinna markvisst.

Í ræðu sinni vék Steingrímur sérstaklega að þeim sem hann kallaði töframenn sem segðu að skuldir gætu horfið með einu pennastriki. Steingrímur sagði að ef það væri rétt, þ.e. að menn gætu látið skuldir hverfa, þá myndi hann hiklaust ráða slíka menn í fjármálaráðuneytið.