Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra segir að eftir sinni bestu vitund séu erlendir vogunarsjóðir ekki á meðal kröfuhafa íslensku bankanna.

Þetta sagði Steingrímur á blaðamannafundi sem stendur nú yfir í kjölfar samkomulags milli stjórnvalda og skilanefnda gömlu bankanna, fyrir hönd kröfuhafa þeirra, um uppgjör vegna skiptingar eigna milli gömlu og nýju bankanna.

Steingrímur segir að á meðal kröfuhafa séu stórir erlendir bankar sem muni mynda kjölfestu eignarhlut í bönkunum.

Eins og fram kom í morgun hefur náðst samkomulag milli fyrrgreindra aðila sem fela meðal annars í sér að skilanefndir Glitnis og Kaupþings, að undangengnu samráði við kröfuhafa, eigi þess kost að eignast meginhluta hlutafjár í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi. Þá hefur jafnframt náðst samkomulag við kröfuhafa gamla Landsbankans um hvernig staðið verður að því að ljúka uppgjöri milli hins gamla og nýja Landsbanka, en það samkomulag er í eðli sínu frábrugðið hinum tveimur, þar sem samsetning kröfuhafahópsins er önnur en í hinum bönkunum.

Á blaðamannafundi með forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar og skilanefndum kom fram að íslenska bankastarfsemin er aðeins hluti af eignasafni gömlu bankanna. Skilanefndirnar eru fulltrúar kröfuhafa, hverjir svo sem þeir kunna að vera, og áfram verður unnið að sölu eigna gömlu bankanna.

Forsvarsmenn skilanefnda Kaupþings og Glitnis upplýstu að erlendis skuldabréfaeigendur séu meðal stærstu kröfuhafa í þrotabú bankanna. Í tilfelli Landsbankans eru tryggingasjóðir á vegum breska og hollenska ríkisins stærstu kröfuhafarnir.