„Það veldur miklum vonbrigðum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, en Evrópusambandið og Noregur hafa einhliða skammtað sér tæplega 490 þúsund tonna makrílkvóta fyrir árið 2013 eða sem nemur ríflega 90% af ráðlagðri heildarveiði úr makrílstofninum. Eftir standa innan við 10% kvótans sem fellur í hlut Íslands, Færeyja og Rússa.

Steingrímur segir í yfirlýsingu að með þessu sé horft framhjá breyttu göngumynstri makrílstofnsins en áætlað er að í fyrra hafi um 1,5 milljónir tonna af makríl verið í íslensku lögsögunni. Þar hafi hún þyngst um allt að 50% og étið allt að 3 milljónum tonna af fæðu með tilheyrandi áhrifum á lífríkið.

Steingrímur hefur fyrir Íslands hönd átt í viðræðum við Evrópusambandið um úthlutun makrílkvótans svo mánuðum skipti. Í yfirlýsingu hans segir orðrétt:

„Lykillinn að lausn makríldeilunnar er að tekið verði fullt tillit til þessara miklu breytinga á göngu makrílsins, að allir aðilar fái sanngjarnan hlut og umfram allt að veiðarnar byggist á vísindalegu mati á ástandi stofnsins. Við vonum að Evrópusambandið og Noregur sjái að sér og verði tilbúnir að setjast að samningaborðinu til þess að finna varanlega lausn sem tryggi sjálfbæra nýtingu stofnsins. Það eru hagsmunir allra hlutaðeigandi aðila að lausn finnist sem fyrst.“