„Það var ágætt að fá þessa umræðu og fullkomlega eðlilegt að hún sé tekin. Menn fylgjast með þessu og enginn getur neitað því að þessi vandi og það hvernig úr honum leysist getur haft sín áhrif á okkur," segir Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem var til andsvara í sérstakri umræðu Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um stöðu evrunnar og áhrifa evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

Illugi spurði Steingrím m.a. út í áhrif af skuldakreppunni í Evrópu hér á landi.

Steingrímur segir Íslendinga geta hrósað happi yfir því að vera í skjóli frá vanda evrusvæðisins í skugga gjaldeyrishafta. Hann bendir á að ríkissjóður sé tiltölulega vel staddur, lausafjárstaðan rúm og engin sjáanleg vandamál framundan. Svipaða sögu sé að segja af bönkum landsins.

„Við erum býsna vel varin þótt við höfum búið við þessa kreppu í Evrópu í nokkurn tíma án þess að það hafi mikil áhrif á okkur,“ segir Steingrímur og bætir við að viðskiptakjör landsins hafi þrátt fyrir það haldist góð. Á sama tíma verði að hafa augun opin fyrir hugsanlegum neikvæðum áhrifum skuldavandans á evrusvæðinu á efnahagslífið hér. Þau geta m.a. falist í verri viðskiptakjörum, haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og tafið fyrir fjárfestingaráformum.

Þjóðarleiðtogar ESB að renna út á tíma

„Það er gífurlega mikið hagsmunamál að leysa úr þessum vandræðum í Evrópu. Ísland á mikið í húfi í þeim efnum. En vandinn  hefur sem slíkt ekki bein áhrif á aðildarviðræður í augnablikinu. Hins vegar er alveg ljóst að það getur haft áhrif á það hvernig menn meta framhaldið, þ.e. hvernig það Evrópusamband verður sem kemur upp úr þessum sviptingum," segir hann og bætir við að mjög líklega taki Evrópusambandið breytingum.

„Ég hef sagt sem svo að þetta skýrist á innan við þremur mánuðum. Ég er ekki viss um að Evrópusambandið hafi meiri tíma til að málið fari að taka stefnu og skýrast hvort þeir séu að ná tökum á þessu eða ekki. Maður vonar það besta, svo sem að þessar björgunaraðgerðir dugi til.“