Steingrímur J. Sigfússonar, sjávarútvegs-, landbúnaðar, efnahags- og viðskiptaráðherra, verður einn af frummælendum á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn verður á laugardaginn. Steingrímur J. mun ásamt Ólínu Þorvarðardóttur fjalla um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Samkvæmt tilkynningu frá Samfylkingunni verður fjallað um forgangsverkefni í atvinnu- og efnahagsmálum á fundinum á laugardag.

Þá verður einnig tekin til umræðu og afgreiðslu tillaga um að halda landsfund í vor, en sú tillaga var upphaflega lögð fram á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar þann 30. desember sl. í kjölfar þess að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lýsti því yfir í viðtali við áramótatímarit Viðskiptablaðsins að Samfylkingin þyrfti að skipta út forystu sinni fyrir næstu kosningar.

Flokksstjórnarfundir eru opnir öllum félögum í Samfylkingunni en aðeins flokksstjórnafulltrúar hafa atkvæðisrétt. Í flokksstjórn Samfylkingarinnar eiga sæti um 210 manns; framkvæmdastjórn flokksins, fulltrúar kjörnir á landsfundi, fulltrúar kjörnir af kjördæmaráðum, formenn aðildarfélaga, formenn kjördæma- og fulltrúaráða, stjórn verkalýðsmálaráðs, sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar og þingmenn flokksins.