Steingrímur J. Sigfússon tilkynnti rétt í þessu að hann hyggst ekki gefa kost á sér áfram sem formaður flokksins. Hann hefur starfað sem formaður flokksins frá stofnun Vinstri Græna 6. febrúar 1999.

„Kynslóðaskipti og endurnýjun eru nauðsynleg í stjórnmálastarfi sem og annar staðar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon. Í máli hans koma meðal annars fram að fyrsta hreina vinstrisjtórn lýðveldissögunnar hafi endurreist landið úr rústum valdatíma Sjálfstæðisflokksins.

„En gert er gert og liðið er liðið. Nú er það framtíðin sem öllu skiptir. Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur miklu hlutverki að gegna í þeirri framtíð sem merkisberi róttækrar vinstristefnu, umhverfisverndar, kvenfrelsis og félagslegrar alþjóðahyggju. Stolt af verkum okkar getum við tekist á við þær áskoranir sem framtíðin ber með sér. Ég er sannfærður um að ný flokksforusta sem leiðir okkar kosningabaráttu og starf á næsta kjörtímabili mun fá meðbyr og efla okkar baráttu. Ég ætla svo sannarlega að vera þar með í verkunum og hugsa mér gott til glóðarinnar,“ segir Steingrímur í tilkynningu sinni.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í Norræna húsinu rétt í þessu. Boðað var til fundarins með skömmum fyrirvara fyrr í dag.