Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra neitar því að hafa gefið það í skyn á opnum atvinnumálafundi á Egilsstöðum á þriðjudag að ríkið gæti þurft að koma að eða taka yfir rekstur Icelandair.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Steingrímur að rætt hafi verið um ferðaþjónustu á austurlandi en einnig var rætt um eignaumsýslufélag á vegum ríkisins sem gætu þurft að reka hin ýmsu fyrirtæki næstu misseri.

Steingrímur segir þó að ekki hafi komið til umræðu að Icelandair yrði hluti af slíku félagi. Hann segir að ákveðnir fundarmenn hafi sagt hann gefa annað í skyn en slík túlkun væri einfaldlega röng.

„Icelandair hefur staðið sig mjög vel undanfarið og ég í raun dáist að kjark þeirra og dugnaði,“ segir Steingrímur í samtali við Viðskiptablaðið og bætir því við að Icelandair hafi nýlega bætt við nýrri flugleið og þar á bæ sé mikill hugur í mönnum.

„Ég mótmælti því á þessum fundi að menn væru með aðdróttanir og mistúlkun á orðum mínum,“ segir Steingrímur og vísar  í tilkynningu fjármálaráðuneytisins frá því fyrr í kvöld.