Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og formaður Vinstri grænna, tilkynnti nýlega að hann hygðist gefa kost á sér í forvali Vinstri grænna í heimakjördæmi sínu, Norðausturkjördæmi. Kosningarnar í vor verða því elleftu alþingiskosningar Steingríms og þá hefur hann setið á þingi í 30 ár, eða frá árinu 1983.

Steingrímur er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kemur út í dag. Í ljósi þess að Steingrímur hefur sjálfur, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, haft orð á því hversu strembin síðustu fjögur ár hafa verið, liggur beinast við að spyrja hvort hann hafi ekki íhugað það að hætta í lok þessa kjörtímabils?

„Já, ég gerði það töluvert. Ég hefði að mörgu leyti talið þetta ágætan tíma fyrir mig,“ segir Steingrímur og bætir því við að hann hafi ungur gefið sér það loforð að hann myndi hætta á sínum eigin forsendum og án þess að vera útbrunninn.

„Ég tel mig ekki vera það,“ segir Steingrímur.

„En ég viðurkenni að ég hef vissulega horft yfir sviðið og metið stöðuna og þá sérstaklega þegar forsætisráðherra tilkynnti nýlega að hún myndi hætta. Þá velti ég því fyrir mér hvort ég ætti ekki að gera það líka, hvort það væri ekki við hæfi að við tvö sem höfum borið hitann og þungan af þessari glímu síðustu ár segðum þetta gott. En það urðu ýmsar ástæður til þess að ég ákvað að gera það ekki.“

Eins og hverjar?

„Eins og þær að ég er enn á ágætis aldri, merkilega heilsuhraustur og sit þá eftir í stjórnmálunum með óumdeilanlega langmestu reynsluna,“ segir Steingrímur.

„Ég tel að sú reynsla geti komið að gagni og ég hef þá trú að ég geti enn lagt mitt lóð á vogarskálarnar svo eitthvað muni um í þágu þess sem ég vil berjast fyrir í stjórnmálum. Ég hef auðvitað fullan hug á því að láta ekki níða niður verk okkar í þessari ríkisstjórn sem ég er sannfærður um að á eftir að þykja með þeim merkustu í sögu lýðveldisins. Þannig að ég mun taka til varnar ef mér finnst að okkur veist í kosningabaráttunni. Ég fer ekkert í grafgötur með það.“

Sem fyrr segir er rætt nánar við Steingrím í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. Þeir sem þekkja vel til stjórnmálanna vita að Steingrímur hefur verið í forsvari fyrir og haft meiri áhrif á störf núverandi ríkisstjórnar en forsætisráðherra. Í viðtalinu fer Steingrímur yfir nokkur umdeild atriði á kjörtímabilinu, hugmyndafræðilega baráttu Vinstri grænna, umræðuna um árangur ríkisstjórnarinnar auk þess sem hann svarar frekari spurningum um þær hugleiðingar sínar um hvort hann ætti að hætta í stjórnmálum eða ekki.