Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag skilyrðin fyrir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Veruleikinn er sá að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræður," sagði hann. „Það kemur aftur og aftur fram í plagginu að það er hann sem þrátt fyrir allt ræður."

IMF samþykkkti lán til Íslendinga í gær. Skilyrðin fyrir aðstoðinni koma fram í viljayfirlýsingu sem undirrituð er af formanni bankastjórnar Seðlabankans og fjármálaráðherra. Sú yfirlýsing eða áætlun er til umræðu á Alþingi þessa stundina.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra svaraði gagnrýni Steingríms með því að segja að í áætluninni fælist ekki neitt valdaframsal. Í henni fælist hins vegar samráð við IMF. Með því væri verið að nýta þá sérþekkingu sem þar væri til staðar.

Hún sagði enn fremur að sá reyndi bankaeftirlitsmaður, sem ætti að fara yfir regluverkið og starfshætti við bankaeftirlit, væri finnskur og fyrrverandi forstöðumaður fjármálaeftirlitsins þar í landi.

Þarf samþykki IMF fyrir sameiningu FME og SÍ?

Steingrímur benti meðal annars á tíunda tölulið umræddrar áætlunar. Þar segði efst" „Í framhaldinu munum við endurskoða alla regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits til að efla viðbúnað gegn hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni."

Neðst í þeim tölulið segir: „Við munum ræða fyrir fram sérhverja breytingu á áformum okkar í þessu efni við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins."

Steingrímur velti því fyrir sér hvernig þessi töluliður færi saman við þá hugmynd sem nú væri  uppi að sameina Seðlabankann og Fjármáleftirlitið. Hann benti á að það þyrfti alltént, samkvæmt þessu, að gerast í samráði við IMF.