„Það getur verið að ég hafi fengið einhvern skít í mig. Mótstöðuaflið er ekki upp á það besta. Ég fékk einhverja slæmsku í hálsinn yfir helgina. Það ágerðist svo í gær og nú segi ég lítið enda orðinn nær algjörlega raddlaus,“ segir Steingrímur J. Sigfúss, efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Athygli vakti í viðtali við hann bæði í útvarpsfréttum í gær og í Kastljósviðtali um kvöldið að rödd hans var óvenju rám.

Steingrímur kynnti í gær frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á kvótakerfinu og hafa útgerðarmenn gagnrýnt það harðlega. Í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag sagði að útgerðin hafi verið þjóðnýtt. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sagði veiðileyfagjaldið sem boðað er í frumvarpinu ógna rekstrargrundvelli fyrirtækja í sjávarútvegi og leitt af sér gjaldþrot í greininni.

„Ég fór reyndar út að hlaupa í rigningarkalsa og roki á laugardag og veit ekki hvort það hafi haft áhrif,“ segir Steingrímur en hann fór sjö kílómetra sprett. Steingrímur útilokar ekki að upp úr útiverunni hafi hann fengið einhverja flensu eða annað sem fari illa í sig.

Steingrímur boðaði veikindi á Alþingi í dag vegna heilsubrestsins. Hann hefur samt ekki leitað til læknis vegna ástandsins.

„Ég hef nú ekki haft tíma í það heldur reynt að drekka einhverjar mixtúrur,“ segir Steingrímur.