Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að það muni ekki setja neitt strik í reikninginn í efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda þótt Rússar hafi synjað Íslendingum um lán.

Til umræðu var að Rússar veittu Íslendingum 500 milljóna dollara lán en Rússar hefðu greint Íslendingum frá því í Istanbúl í Tyrklandi í síðustu viku að ekkert yrði af því.

Steingrímur segir að þessi niðurstaða hafi í raun ekki komið á óvart. Rússar hefðu farið sér hægt í viðræðunum um mögulega lánafyrirgreiðslu og í Istanbúl hafi þeir síðan gefið þá skýringu að þeir væru sjálfir í erfiðari stöðu en þeir hefðu reiknað með. Þeir vildu því fremur einbeita sér að því að aðstoða sín  nærsvæði.

„Þetta var allt í góðu og við sögðumst skilja þeirra aðstæður," segir Steingímur í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að alltaf hafi verið ákveðinn fyrirvari á því að lánið frá Rússum myndi skila sér. Auk þess væri „hreyfing í þá átt", eins og hann orðar það, að endurmeta þörf Íslendinga fyrir heildargjaldeyrislántöku.

Það hefði verið rætt við forsvarsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Istanbúl.