Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir miður að Gunnar Örn Kristjánsson skyldi hafa komist að þeirri niðurstöðu að láta af störfum sem bankaráðsformaður Kaupþings.  „Þetta var hins vegar hans niðurstaða þegar hann var búinn að skoða málið."

Gunnar Örn var skipaður í starfið á mánudag en baðst lausnar í morgun. Reynt verður að finna nýjan mann hið fyrsta.

„Það er einfaldlega þannig að það stendur ekki gott fólk í biðröðum til að taka að sér þetta erfiða verk," segir Steingrímur. Því hafi hann kynnst þegar forveri Gunnars Arnar, Magnús Gunnarsson, hafi beðist lausnar.

„Ég var búinn að leita til margra aðila sem ekki gáfu færi á sér í þetta. En þetta hlýtur að leysast. Ég fer bara annan rúnt."

Steingrímur segir að skipan Gunnars Arnar hafi borið brátt að. Hann hafi verið hikandi í fyrstu en ákveðið að láta á þetta reyna. Þegar hann svo að athuguðu máli hafi séð í hvað starfinu fólst hafi hann séð að það væri viðameira en hann hefði aðstöðu til að gegna.