"Það eru engar viðræður um slíkt í gangi," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, um þjóðstjórnarhugmynd sem Davíð Oddsson Seðlabankastjóri á að hafa nefnt á bankaráðsfundi og ríkisstjórnarfundi í vikunni. Fréttablaðið greinir frá því í dag.

„Ég les í þetta þannig að Davíð hafi með þessu verið að leggja áherslu á hvað ástandið í efnahagsmálum væri orðið alvarlegt. En ekki endilega að hann telji það sitt hlutverk að gefa mönnum leiðsögn um myndun ríkisstjórnar," segir Steingrímur í samtali við Viðskiptablaðið. "Þetta eru bara bollaleggingar."

Steingrímur heldur áfram og segir að staðan í efnahagsmálum sé alvarleg og að eitthvað verði að gera. "Við Guðni [Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins] höfum reyndar báðir talað í þessa átt, þ.e.a.s. við höfum talað um  nauðsyn þjóðarsamstöðu. Það þyrfti að sameina kraftana í þeim hildarleik sem framundan er."

Spurður hvort hann væri tilbúinn að stíga inn í þjóðstjórn segist hann engu vilja svara um það. "Við höfum þó engum möguleikum hafnað," segir hann. "Við skorumst ekki undan ábyrgð við aðstæður eins og þessar."

Engar viðræður um þjóðstjórn séu þó í gangi.