Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að vegna þeirra efasemda sem búið er að sá í hugum fólks um stöðu íslenska fjármálakerfisins, verði hluti skýrslu Deloitte og Oliver Wyman um stöðu nýju bankanna örugglega opinberaður. Hann nefnir enga tímasetningu en segir skýrsluna vera á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins og heyri því undir viðskiptaráðherrann.

Aðspurður um hvort ekki væri líka óheppilegt að halda skýrslunni leyndri í ljósi þeirrar áherslu sem lögð væri á í stjórnarsáttmála Samfylkingar og VG að halda uppi virkri upplýsingagjöf til íslensku, sagði Steingrímur:

„Jú, en það er hrein tilviljun að þetta stendur svona af sér í tíma. Það er samt frekar ódýrt að reyna að hamra á því að með því sé verið að ástunda einhverja leynd. Hafa menn þá engan skilning á því hvers eðlis þessar upplýsingar eru og hvernig málið er vaxið. Þetta er þó bara einfaldlega ekki í okkar höndum, það er Fjármálaeftirlitið sem stjórnar því hvernig með þetta er farið.

Það var bara búið að leggja niður ákveðnar verklagsreglur um hvernig með gögnin yrði farið þegar þau yrðu tilbúin. Það var bara rétt að gerast núna því það var bara einhver bráðabirgða samantekt sem var tilbúin í síðustu viku.

Eftir því sem þessu var lýst fyrir mér á að halda utan um þessi gögn á einum stað. Menn eiga að fá að koma þangað og skoða þau, en fá þau ekki afhent. Þannig að farið er með þetta sem trúnaðarmál því það inniheldur viðkvæmar viðskiptatengdar upplýsingar. Það var búið að ákveða hvernig verkferlið yrði og verið er að fylgja því.

Það var talið óumflýjanlegt að kröfuhafar og hagsmunaaðilar fengju fyrstir að kynna sér gögnin. Ég hef t.d. ekki skoðað þessa skýrslu ennþá.”

Hvað með fullyrðingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarlokksins, um að tölur í endurmati á stöðu bankanna feli í sér að gert sé ráð fyrir algjöru hruni íslensks efnahagslífs?

„Þetta er tilefnislaus og afar óábyrgur málflutningur. Og eiginlega dæmalaust að maðurinn skuli án þess að sýna nein gögn og án þess að rökstyðja mál sitt, að keyra af stað með að hér sé annað allsherjar hrun í vændum. Hvorki ég né viðskiptaráðherra höfum neinar slíkar upplýsingar í höndum og dálítið merkilegt ef Sigmundur Davíð hefur þau en ekki við. Það sem hann hefur verið að nefna er að hluta til gamlar fréttir um að það muni þurfa eitthvað minna eigið fé inn í bankana. Það hefur legið í loftinu síðan í febrúar og byrjun mars að efnahagsreikningur bankanna yrði minni að vöxtum en upphaflega var gert ráð fyrir.”

Það er þó allavega búið að sá efasemdum í hugum fólks um stöðu bankanna, er þá ekki af þeim ástæðum fullt tilefni til að opinbera skýrsluna að minnsta kosti að hluta?

„Jú, enda verður það örugglega gert. En það er þá í höndum þeirra sem stjórna því ferli sem er Fjármálaeftirlitið og Viðskiptaráðherra. En þetta er mikill ábyrgðahlutur og það varð óróleiki í bankakerfinu strax í morgun út af þessu upphlaupi Sigmundar,” segir Steingrímur J. Sigfússon en tiltekur ekkert hvernær leyndinni verði mögulega aflétt.

Ekki hefur náðst í Jóhönnnu Sigurðardóttur forsætisráðherra vegna málsins.