Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, gagnrýnir að ekki skuli hafa verið kannaðir til þrautar aðrir kostir en sá einn að snúa sér til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Íslendingar hefðu sérstaklega átt að leita til Norðmanna. Þeir hafi sýnt okkur mikinn velvilja.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu frá Steingrími.

„Miklu hefði skipt að mati undirritaðs að komast hjá því að lenda formlega undir skilmálum IMF en sættast fremur á ráðgjöf og stuðning sjóðsins, t.d. við norræna aðgerðaáætlun til aðstoðar Íslandi."

Önnur úrræði hafi ekki verið reynd til þrautar

Steingrímur segist í yfirlýsingunni vara sérstaklega við þeirri tengingu sem er milli aðstoðar frá IMF og óuppgerðra mála við Breta og Holllendinga, einkum vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Þá segir hann: „Undirritaður getur því ekki mælt með því, og er því þvert á móti andvígur, þó svo staðan sé orðin mjög þröng eins og ríkisstjórnin hefur haldið á málum, að formlegt erindi verði að svo stöddu sent til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og beðið um aðstoð. Það er mat undirritaðs að önnur úrræði hafi ekki verið reynd til þrautar og að kringumstæður, skilmálar og það ferli sem framundan er, ef leitað verður til sjóðsins, sé allt mjög varhugavert."