Steingrímur J. Sigfússon er sá þingmaður á nýju þingi sem lengstan starfsaldur hefur, en hann situr nú sitt 42. þing að því er Morgunblaðið greinir frá. Steingrímur var kjörinn fyrst á Alþingi árið 1983 en samkvæmt venjum Handbókar Alþingis eru talin með öll þing sem þingmaður hefur setið sem varamaður, jafnvel þó hann hafi einungis setið um stuttan tíma á því þingi.

Sá þingmaður sem á næstlengstan þingferil er svo Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra sem er á sínu 22. þingi, en þar á eftir kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem er á sínu 20. þingi. Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra eru á sínu 19. þingi, Jón Gunnarsson samgönguráðherra, Katrín Jakobsdóttir, Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir á sínu 14. þingi.

Eygló Harðardóttir á sínu þrettánda en á sínu 12. þingi eru svo þau: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Oddný G. Harðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir. Aðrir þingmenn, 22 í heildina, sitja nú sitt annað þing eftir að hafa verið kjörnir síðastliðið haust.