„Ég met stöðuna því miður þannig að allt sé að stefna í að hvorugur aðilinn fari í mál, og það eru stór mistök að mínu mati.“

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG í samtali við Viðskiptablaðið um stöðu málsóknar á hendur breskra yfirvalda vegna beitingu hryðjuverkalaga á Landsbankann í október sl.

„Breska fjármálaráðuneytið grípur til hryðjuverkalaga og frystir eignir Landsbankans með þessum grófa hætti sem það er gert, með 10 mínútna fyrirvara að morgni 8. október,“ segir Steingrímur.

„Í framhaldi af þessari ákvörðun breska ríkisins geta annaðhvort Landsbankinn gamli eða íslenska ríkið, nema báðir aðilar væru, höfðað mál til þess að láta reyna á þá stjórnvaldsákvörðun breska fjármálaráðuneytisins að beita þessum hryðjuverkalögum. Og sá frestur rennur út kl. 4 á morgun.“

Þá segir Steingrímur að ef reyna eigi á upprunalegu stjórnvaldsákvörðunina þurfi að gera það innan þriggja mánaða.

„Mér finnst það alveg skelfileg uppgjöf ef hvorugur aðilinn, hvorki íslenska ríkið né Landsbankinn gamli, fer í mál. Ég hélt í þá von fram á síðustu stundu, eða þangað til í gær, að jafnvel þó að ríkið færi ekki í mál, þá myndi Landsbankinn gera það. Af því að það hefði að mörgu leyti komið út á eitt, því ríkið myndi dragast inn í það mál með bankanum. Lögmenn voru búnir að benda á það að það þjónaði í aðalatriðum sama tilgangi. Ég treysti því að allt yrði sett á fullt í að klára það mál,“ segir  hann og bendir á þá staðreynd að Alþingi hafi í desember samþykkt að ríkið skyldi standa bak við bankana með málskostnaðinn.

Steingrímur segir að þegar það frumvarp var til umræðu og lokaafgreiðslu hafi hann spurt hvort það mætti ekki algjörlega treysta því að ríkisstjórnin myndi í framhaldi beita sér fyrir því að farið yrði í mál.

„Þannig að mér finnst menn ekki vera að vinna þetta í framhaldi í samræmi við þann vilja sem Alþingi sýndi.“