Ef vel er haldið á ríkisútgjöldum þá ætti rekstur ríkisins að vera með góðu móti frá árinu 2014. Það kann að gefa tilefni til þess að endurskoða sumar af þeim skattaaðgerðum sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í síðustu ár.

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er þess í stað birtur í heild sinni hér.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins spurði Steingrím, í ljósi þess að gert sér ráð fyrir afgangi af rekstri ríkisins árið 2014, hvort til greina kæmi að lækka skatta, greiða niður skuldir ríkisins eða hvoru tveggja ef vinstri flokkarnir yrðu enn við völd.

„Ef við pössum okkur að missa ekki tökin á útgjöldunum þá á rekstur ríkisins að vera með góðu móti frá árinu 2014. Ef hagkerfið tekur við sér þá skila tekjustofnarnir meira af sér án þess að skattar séu hækkaðir,“ segir Steingrímur.

„Að sjálfsögðu er það þannig að við þurfum að endurskoða sumar af þeim aðgerðum sem við höfum þurft að ráðast í. Það er t.d. þörf á því að fara yfir og samræma skattlagningu fjármagns og eignatekna. Ég sé ekki fyrir mér að það standi óbreytti eins og við lögðum upp með hækkun á fjármagnstekjuskatti annars vegar og auðlegðarskatti hins vegar. Þetta er eitthvað sem þarf að fara yfir og gera breytingar. En það hefur verið mjög dýrmætt að efnaðasta fólkið í landinu hefur lagt sitt af mörkum, t.d. í gegnum auðlegðarskattinn.“

Auðlegðarskatturinn átti að vera tímabundinn en hefur tvisvar verið framlengdur. Það er nú gamall brandari sem segir að það sé ekkert eins varandi eins og tímabundnir skattar. Á það við hér?

„Hann var framlengdur af því að ríkisfjármálin, ríkisfjármálaáætlunin til meðallangs tíma þarf að ganga upp. Þegar við síðan förum að reka ríkissjóð með marktækum afgangi getum við endurskoðað þetta,“ segir Steingrímur.

„En það þarf líka að fara út í aðrar aðgerðir, t.d. að greiða niður skuldir og greiða inn á lífeyrisskuldbindingar ríkisins. Allt þetta kallar á mikinn aga í ríkisfjármálum. Það er nauðsynlegt að lækka vaxtakostnað ríkisins, sem nú er um 15% af ríkisútgjöldum. Ég er ekki sáttur við það að greiða svo mikið til lengri tíma, ég vil borga minna í vexti og meira í velferð og uppbyggingu. Síðan þurfum við líka að lækka launatengd gjöld þegar atvinnuleysi minnkar. Ég er ekki á móti því að menn endurskoði tekjuöflun ríkisins en ég mæli þau varnaðarorð að menn fari að lofa því að lækka skatta alls staðar. Það er ábyrgðarlaust og við þurfum á sterku tekjuöflunarkerfi að halda þangað til að ríkisbúskapurinn er orðin sjálfbær.“

Sem fyrr segir er rætt nánar við Steingrím í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer Steingrímur yfir nokkur umdeild atriði á kjörtímabilinu, hugmyndafræðilega baráttu Vinstri grænna, umræðuna um árangur ríkisstjórnarinnar auk þess sem hann svarar frekari spurningum um þær hugleiðingar sínar um hvort hann ætti að hætta í stjórnmálum eða ekki.