Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir í samtali við Wall Street Journal að Íslendingar, Bretar og Hollendingar séu nálægt því að ná samkomulagi vegna Icesave málsins.

Í samtali við Wall Street Journal (WSJ) segir Steingrímur, sem nú er staddur á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Istanbúl í Tyrklandi, að málið sé orðið hið vandræðalegasta fyrir alla aðila og hafi valdið ítrekaðri töf á fyrstu endurskoðun málefna Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).

„Ég finn að nú sé vilji til að horfa fram á veginn,“ hefur WSJ eftir Steingrími sem segist hafa átt jákvæða fundi með fjármálaráðherrum Bretlands og Hollands. Þá hefur blaðið jafnframt eftir Steingrími að málið hafi þróast i þá veru að það sé ekki lengur forsíðuefni breskra fjölmiðla að fólk hafi tapað sparifé sínu hjá íslenskum bönkum.

„Þetta er vandræðalegt mál fyrir okkur öll, áætlun AGS hefur ítrekað tafist,“ sagði Steingrímur J.

Steingrímur J. vildi ekki ræða nánar innihald funda sinna við fjármálaráðherra Bretlands og Hollands. Hann sagði þó að Bretar og Hollendingar vildu tryggingu fyrir því að búið væri að endurgreiða þeim alla upphæðina [af Icesave lánunum svokölluðu, innsk.blaðamanns] til baka eftir 15 ár.

„Fólk á erfitt með að sætta sig við að það sjálft, börnin þeirra og jafnvel barnabörnin þurfi að bera byrðarnar af verkum bankanna erlendis,“ sagði Steingrímur og bætti því við að málið muni ekki leiða til falls ríkisstjórnarinnar líkt og getið hefur verið að í fjölmiðlum.