Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, vill setja sölu Kaupþings í Lúxemborg á ís.

Hann vill einnig að skattrannsóknarstjóri fái heimildir fyrir helgi til að afla gagna frá bankanum.

Hann hefur áhyggjur af því að mikilvæg gögn glatist verði bankinn seldur á næstu dögum. Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í dag.

Gögnum verði ekki spillt

Geir H. Haarde forsætisráðherra kvaðst taka undir með Steingrími um mikilvægi þess að gögnum sem tengjast hruni bankanna verði ekki spillt.

„Auðvitað á að greiða fyrir því að skattrannsóknarstjóraembættið getið unnið sín störf. Það segir sig sjálft," sagði hann.

„Það er hins vegar álitamál hvort hagsmunum Íslands - og þar með taldir möguleikarnir á því að afla rannsóknargagna - sé betur borgið í samstarfi við yfirvöld í Lúxemborg um að selja þann banka sem þar er. Eða halda honum í óbreyttu horfi og tapa þar með hugsanlegum peningum og jafnvel rýra aðgang að upplýsingum úr bankanum. Gleymum því ekki hvernig kerfið í Lúxemborg er og hversu erfitt er að fá gögn út úr þeim bönkum."

Ærin ástæða til að hafa hraðar hendur

Steingrímur var ekki á sama máli. Hann sagði það ganga gegn öllum skynsamlegum sjónarmiðum að halda því fram að það verði auðveldara að sækja gögn þegar búið væri að koma bankanum í rekstur hjá öðrum aðilum.

Hann sagði að bankaleyndin í Lúxemborg væri ein hin sterkasta í allra Evrópu, fyrir utan Sviss, og því væri ærin ástæða til að hafa hraðar hendur.