Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna segir skilaboð ríkisstjórnarinnar frá því í morgun vera dapurleg.

Ríkisstjórnin kynnti í morgun drög að nýjum fjárlögum þar sem boðaður er 24 milljarða króna niðurskurður í útgjöldum ríkisins auk skattahækkana á einstaklinga.

„Þarna er um að ræða fjárlög flutt af ríkisstjórninni og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum,“ segir Steingrímur í samtali við Viðskiptablaðið.

Steingrímur segir að með tillögum sinum sé ríkisstjórnin að fara út í niðurskurð á almannatryggingakerfinu þar sem ekki sé gætt jafnvægis á þeim sem lifa á lágmarksframfærslukostnaði og annarra.

„Það vantar enn miklar upplýsingar um útfærsluna á þessu en þarna er farið beint inn í viðkvæma þætti velferðarkerfisins sem er almannatryggingakerfið,“ segir Steingrímur.

„Það eru auðvitað vonbrigði að verið sé að fara út í flata skattahækkun,“ segir Steingrímur og bætir því við að nær hefði verið að annað hvort setja á hátekjuskatt eða halda sömu skattaprósentu og hækka skattleysismörkin.

„Þetta dregur athygli að skömm ríkisstjórna síðustu ára sem lækkuðu skatta á hátekjufólk,“ segir Steingrímur.

Steingrímur leggur áherslu á að ekkert samráð hafi verið haft við sveitafélögin, verkalýðshreyfinguna og samtök aldraðra og öryrkja við gerð nýrra fjárlaga. Hann telur að útkoman fyrir sveitafélögin sé miður góð og efla þurfi þau frekar.

Þá minnir Steingrímur á að enn eigi eftir að fara yfir skuldastöðu ríkisins og vaxtagreiðslur af lánum. Ekki sé búið að fjalla nægilega um það í umræðu um fjárlögin.

„Það er áberandi að það er enginn með yfirsýn yfir heildarmyndina í samfélaginu og þjóðarbúskapinn,“ segir Steingrímur.

„Þegar menn lenda í vandræðum eru þeir fljótir að vísa á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“