Steingrímur P. Kárason þarf að greiða Arion banka 898 milljónir vegna láns sem hann fékk frá Kaupþingi á árunum fyrir bankahrun. Hæstiréttur kvað upp svohljóðandi dóm í dag og staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.

Um er að ræða deilu um lán sem Steingrímur fékk hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum á árunum fyrir bankahrun. Nær allir fyrrverandi samstarfsfélagar Steingríms úr röðum yfirstjórnar Kaupþings hafa verið dæmdir til að greiða háar fjárhæðir vegna lána sem þeir fengu til kaupa á hlutabréfum í bankanum.

Steingrímur var á meðal launahæstu starfsmanna Kaupþings á sínum tíma og stóðu lánveitingar til hans tæpum 2,3 milljörðum króna árið 2008. Rétt fyrir fall Kaupþings í október 2008 ákvað stjórn bankans að aflétta persónulegri ábyrgð starfsmanna á lánum sem bankinn veitti þeim. Skilanefnd Kaupþings sem tók við af bankastjórninni rifti þeirri ákvörðun og krafði starfsmennina um endurgreiðslu fjárins.

Það er Arion banki sem stefndi Steingrími í málinu sem dæmt verður í á morgun þótt Kaupþing hafi veitt lánið á sínum tíma. Ástæðan fyrir því mun vera sú að Arion banki og þrotabú Kaupþings skiptu kröfum á fyrrverandi starfsmenn bankans sem fengu lán til hlutabréfakaupa á milli sín.