Þrotabú Haldleysis, sem áður hét Fáfnir Holding, hefur stefnt Steingrími Erlingssyni, eiganda fyrirtækisins og krafist riftunar á greiðslu á tæplega 40 milljóna króna skuldabréfi úr félaginu til Steingríms. Skuldabréfið var gefið í tengslum við sölu Fáfnis Holding á fasteigninni við Bárugötu 4 árið 2016. Kaupandi húsnæðisins gaf skuldabréfið út en Fáfnir Holding framseldi bréfið áfram til Steingríms.

Fáfnir Holding var lýst gjaldþrota í júlí 2017. Félagið hélt utan um eignarhlut Steingríms í Fáfni Offshore sem Steingrímur stofnaði árið 2012 til að reka þjónustuskip við olíuleit. Steingrími var sagt upp sem forstjóra fyrirtækisins í desember 2015.

Hlutur Steingríms þynntist Steingrímur lítur svo á að skuldabréfið hafi farið upp í greiðslu skuldar Fáfnis Holding við sig. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Fáfnis Holding nam skuld Fáfnis Holding við Steingrím 470 milljónum króna í árslok 2015. Þá nam eigið fé félagsins 250 þúsund krónum en eignarhluturinn í öðrum félögum var metinn á um 600 milljónir króna. Eftir uppsögn Steingríms var hlutafé Fáfnis Offshore aukið af núverandi hluthöfum. Fáfnir Holding tók ekki þátt í hlutafjáraukningunni og við það þynntist hlutur félagsins í Fáfni Offshore úr 21% í 10,5% og þar með lækkaði virði helstu eignar Fáfnis Holding töluvert.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .