Stöðug veiking krónunnar síðustu mánuði veldur miklum áhyggjum. Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir í samtali við Ríkissjónvarpið að taka þurfi veikinguna mjög alvarlega fari þessi þróun ekki að snúast við.

Gengisvísitalan hefur verið á uppleið síðustu vikur og hefur frá áramótum farið úr 217 stigum í 230. Reyndar hefur gengisvísitalan verið að hækka allt frá því í nóvember og verð ýmissa gjaldmiðla orðið nokkuð hátt.

„Það er alveg rétt, hún hefur veikst, meira en mér finnst eðlilegt ef ég má orða það svo,“ segir Steingrímur í samtali við RÚV. „Á þessum tíma ætti hún að fara að styrkjast bara vegna árstíðarsveiflunnar og vaxandi tekna af ferðaþjónustunnar og öðru slíku sem fer að koma inn.“

Steingrímur segir að skýra þurfi af hverju gengið sé svo veikt og fara ofan í saumana á því. Ákveðnir þættir séu þekktir, svo sem olíuverðshækkanir og afborganir af erlendum lánum en frekari skýringa sé þörf.