„Það hefur enginn stjórnmálaflokkur skipt meira máli síðustu 15 ár en VG. Það er pólitísk staðreynd. Það er ekkert nýtt við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekkert nýtt við Framsókn,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi formaður Vinstri Grænna, á fyrsta degi landsfundar flokksins í gær. Hann bætti við Samfylking hefði fátt nýtt að bjóða.

Framboðsfrestur til embættis formanns VG rann út í gærkvöld og því ljóst að Katrín Jakobsdóttir er ein í framboði til formanns. Einn bættist í hóp þeirra sem sækjast eftir varaformannsembætti og eru það þeir því Björn Valur Gíslason, Þorsteinn Bergsson og Daníel Haukur Arnarsson.

Steingrímur gerði aðgerðir ríkisstjórnarinnar að umtalsmáli í ræðu sinni og fagnaði því að ekki væri lengur talað um gjaldþrot Íslands. Á leiðinni hefði flokkurinn þó þurft að gera málamiðlanir.

„Samfélög sem lenda í efnahagsvanda þurfa að koma öllu samfélaginu í gegnum kreppuna en ekki aðeins hluta þess, ekki bara efstu lögunum. Þetta var ekki síst mikilvægt á Íslandi. Af hverju? Vegna þess að hér hafði ójöfnuður aukist hrikalega árin fyrir hrun. Á svokölluðum góðærisárum útrásarinnar. Sem betur fer hefur þróunin að því leyti snúist algerlega við og þar vega þyngst þær skattkerfisbreytingar sem núverandi ríkisstjórn réðst í, að hluta til strax á miðju ári 2009. Þær breytingar voru byggðar á ósköp einfaldri hugmyndafræði. Það heitir félagshyggja. Hlífum þeim tekjuminni og látum þá tækjuhærri taka á sig meiri byrðar. Og það tókst.“