Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fv. atvinnuvegaráðherra, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til fjármálaráðherra þar sem spurt er um kostnað vegna fjölgunar ráðherra í nýrri ríkisstjórn um einn.

Sem kunnugt er sitja nú níu ráðherrar í ríkisstjórn í stað átta áður. Þannig sitja nú tveir ráðherrar í velferðarráðuneytinu, heilbrigðisráðherra annars vegar og félags- og tryggingamálaráðherra hins vegar, í stað eins áður. Þá sitja tveir ráðherrar í atvinnuvegaráðuneytinu í stað eins ráðherra áður, en það eru iðnaðar- og viðskiptaráðherra annars vegar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hins vegar. Rétt er að geta þess að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er jafnframt umhverfisráðherra.

Í fyrirspurn Steingríms er að vísu spurt um árlegan viðbótarkostnað ríkissjóðs við að fjölga ráðherrum um tvo, þó þeim hafi aðeins verið fjölgað um einn enn sem komið er.

Steingrímur spyr um heildarlaunakostnað ráðherrana, heildarlaunakostnað aðstoðarmanna þeirra, bílastjóra, ritara sem og heildarlaunakostnað ráðgjafa og annarra viðbótarstarfsmanna. Þá er jafnframt spurt um viðbótarkostnað vegna föruneyta ráðherra, þ.m.t. dagpeninga sem og aukinn húsnæðiskostnað.

Þá spyr Steingrímur jafnframt um viðbótarkostnað í heild sinni vegna biðlauna ef stjórnarskipti yrðu á kjörtímabilinu eða í lok þess og viðkomandi ráðherrar og þeir starfsmenn sem þeir hafa ráðið sérstaklega hyrfu úr starfi og þægju biðlaun.