Fyrrverandi formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, sem vék sæti fyrir núverandi formanni flokksins, Katrínu Jakobsdóttur, virðist þegar búinn að ákveða hvernig stjórnarsamstarfið verður í kjölfar kosninga.

Orð Steingríms stangast á við ummæli Katrínar

Steingrímur, sem er oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, mun víst hafa haldið því fram í Grímsey að fyrirhugað sé að Vinstri græn myndi stjórn með Sjálfstæðisflokki eftir kosningar.

Þetta stangast á við ummæli Katrínar sem hefur tekið vel í tillögur Pírata um stjórnarsamstarf VG, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar.

Oddvitar í sama kjördæmi

Þetta segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, á facebook síðu sinni. Halda þarf til haga að Benedikt er einnig oddviti síns flokk fyrir komandi kosningar í sama kjördæmi.

Skilja má jafnframt orð Benedikts um að hann útiloki samstarf við núverandi stjórnarflokka þannig að flokkur sinn muni ekki verða þriðja hjólið undir núverandi samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Segir um vel skrifað leikrit að ræða

„Í dag kemur í ljós að hér er í gangi vel skrifað leikrit. Steingrímur J. Sigfússon telur að sér sé óhætt að ljóstra upp um það í Grímsey að fyrirhugað sé að mynda stjórn VG og Sjálfstæðisflokks,“ sagði Benedikt á facebook síðu sinni.

„Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að lýsa því yfir að ekki væru aðrir kostir í boði og hann væri tilneyddur í slíka stjórn, sem þó mun lengi hafa verið í undirbúningi milli Steingríms og forystu Sjálfstæðismanna.

Vegna þess að þessir tveir flokkar hafa ekki meirihluta þarf Framsóknarflokkurinn að vera með líka. En Steingrímur hefur gleymt því að stundum berast fréttir í land, jafnvel frá afskekktustu stöðum.“