„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum að Framtakssjóðurinn vildi ekki vera með í þessu verkefni,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um þá ákvörðun sjóðsins að fjárfesta ekki í álkaplaverksmiðju á Seyðisfirði.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins (RÚV) í dag að álkaplaverksmiðja sem flytja átti frá Noregi til Seyðisfjarðar og átti að skapa 35 til 50 varanleg störf hafi verið seld annað og verkefnið fyrir bí. Til stóð að vinna álvíra frá álverinu í Reyðarfirði í háspennustrengi. Seyðfirðingar, Síldarvinnslan á Neskaupskaupstað gáfu vilyrði fyrir 500 milljónum króna ásamt fleiri aðilum og vantaði 300 milljónir til að kröfum lánastofnana um 50% eigið fé væri náð. Verkefnið allt átti að kosta 1,6 milljarða. RÚV hafði eftir Sigurfinni Mikaelssyni, sem stýrði verkefninu hér á landi, að aðgangur hafi verið enginn. Hann benti á að Byggðastofnun hafi litist vel á það en skort fé og kallað eftir pólitískri ákvörðun.

Fjárfesta ekki í nýjum verkefnum - og ekki úti á landi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Steingrím að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvað honum finnist um það að Framtakssjóðurinn hafi ekki viljað fjárfesta í verkefninu. Hann vísaði til þess að sjóðurinn, sem er í eigu 16 lífeyrissjóða, hafi átt að stuðla að atvinnuuppbyggingu vítt og breytt um landið. Hins vegar hafi hann reynst heldur passasamari en stefnt var að, ekki síst þegar komi að nýjum verkefnum. Þá spurði hann um skort á pólitískri stefnumörkun.

Steingrímur tók undir með Sigmundi en sagði ekki við ríkisstjórnina og Byggðastofnun að sakast heldur Framtakssjóðinn. Þá sagði hann þetta ekki síst slæmt nú enda álkaplaverksmiðjan álitlegt verkefni á stað sem hefur átt á brattan að sækja.

„Mér fannst þetta kjörið tækifæri fyrir Framtakssjóðinn sem hefur ekki verið viljugur til að fjárfesta úti á landi,“ sagði Steingrímur.