Mikil kergja og óþolinmæði er farin að gera vart við sig í ríkisstjórnarsamstarfinu og er nú komin upp á yfirborðið. Fyrir rúmum tveimur vikum varð ljóst að staða Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var orðin völt. Þá liggur fyrir að bæði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra eru áfjáð í að losna við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, úr ríkisstjórn.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Steingrímur J. lengi viljað losna við Árna Pál úr ríkisstjórninni og samstarf þeirra hefur verið stirt. Þau átök hafa þó lítið verið á yfirborðinu og á tíðum ekki einu sinni við ríkisstjórnarborðið.

Á síðasta ári myndaðist síðan mikil kergja á milli þeirra í aðdraganda umræðu um skuldaafskriftir en Árni Páll var þá félagsmálaráðherra. Ágreiningur þeirra sneri fyrst og fremst að því að samkvæmt ráðleggingu Indriða H. Þorlákssonar stóð til að skattleggja afskriftir skulda bæði á heimili og fyrirtæki.

Sem félagsmálaráðherra beitti Árni Páll sér gegn því að afskriftirnar yrðu skattlagðar með þeim rökum að afskriftir myndu lítið gagnast skuldsettum heimilum ef þau þyrftu síðan að greiða skatt af þeim. Málið var þó lítið rætt formlega innan ríkisstjórnarinnar en í byrjun september 2010 varð Árni Páll efnahags- og viðskiptaráðherra í kjölfar uppstokkunar í ríkisstjórninni.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins lögðust starfsmenn efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hart að starfsmönnum fjármálaráðuneytisins að bakka með skattlagningu á fyrrnefndum afskriftum við dræmar undirtektir. Árni Páll fékk því hagsmunaaðila innan atvinnulífsins, s.s. Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, ASÍ og fleiri, í lið með sér og í byrjun nóvember 2010 var Beina brautin svokallaða kynnt til sögunnar.

Það sem gerði Steingrím J. fyrst og fremst reiðan var að Árni Páll skyldi „safna liði“, ef þannig má að orði komast, gegn sér með því að fá utanaðkomandi aðila inn í málið. Steingrímur J. leit á það sem persónulega árás á sig og sitt ráðuneyti og viðraði þá skoðun við vopnabræður sína í Vinstri grænum að koma þyrfti Árna Páli úr ríkisstjórninni.

Reyndar höfðu þeir Steingrímur J. og Árni Páll tekist á um aðrar skattahækkanir, þar sem Árni Páll vildi spyrna fótum við frekari skattahækkunum, en sú barátta fór að mestu fram innan ríkisstjórnarinnar og í einkasamtölum á milli þeirra tveggja, en varð minna opinber. Þá hafði Árni Páll einnig gagnrýnt meðferð ríkisins á fyrirtækjum á borð við Sjóvá, VBS og Sögu fjárfestingarbanka. Sú gagnrýni snerist eðli málsins samkvæmt helst gegn Steingrími J.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.