Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir veitingu smálána ekki falla undir ákvæði núgildandi laga um neytendalán vegna undanþágu í einum lið laganna þar sem lánasamningar sem gilda skemmri tíma en þrjá mánuði. Í frumvarpi til nýrra laga sem Steingrímur ætlar að leggja fram á haustþingi í næsta mánuði er lagt til að sömu ákvæði gildi um öll lán óháð fjárhæð. Smálánin falla undir það. Frumvarpið tekur tillit til laga og reglna sem gilda á EES-svæðinu.

Steingrímur lagði frumvarp af sama meiði fram í á síðasta þingi en ekki náðist að afgreða það.

Frumvarpið tekur tillit til laga og reglna sem gilda á EES svæðinu.

Fram kemur í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti að frumvarpið taki á smálánum með tvennum hætti.

  • Í öllum auglýsingum, sem varða lánssamninga þar sem gefnar eru upplýsingar um vexti eða tölur varðandi kostnað neytandans af láninu, verður gerð krafa um að fram komi staðlaðar upplýsingar, s.s. um útlánsvexti, árlega hlutfallstölu kostnaðar, lánsfjárhæð og lengd lánssamnings. Fyrir og við samningsgerðina sjálfa eru síðan enn ítarlegri upplýsingakröfur. Neytendur ættu því að vera vel upplýstir um þau kjör sem lánveitendur bjóða.
  • Frumvarpið kveður á um að mat á lánshæfi neytanda skuli fara fram áður en lánssamningur er gerður.  Lánveitandi skal áður en lánssamningur er gerður meta lánshæfi lántaka. Í drögum að reglugerðinni er gert ráð fyrir að óheimilt verði að veita lántaka lán ef mat á lánshæfi leiðir í ljós að hann hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið.

Samkvæmt frumvarpinu mun neytandi hafa rétt til að falla frá samningi innan 14 daga án þess að tilgreina ástæðu. Slík réttindi hafa hingað til aðeins átt við um lánssamninga sem komið er á með fjarsölu, sbr. III. kafli laga nr. 33/2005 um fjarsölu á fjármálaþjónustu, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.