„Ég fór í ferð til Norðurlandanna til að semja um lægri kjör. Upp úr því krafsi fékkst 25 punkta lækkun. Við teljum nú rétt að hefja viðræður á ný,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um endurskoðun á vaxtakjörum lána frá Norðurlöndunum sem stjórnvöld þar lánuðum Íslendingum eftir bankahrunið haustið 2008.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Steingrím í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag um ástæðu þess að Íslendingar voru látnir greiða hærri vexti af lánum frá Norðurlöndunum en aðrir greiddu. Hann nefndi sem dæmi að Írar greiði lægri vexti af lánum sem þeir fengu um svipað leyti. Þá nefndi Sigmundur að fjármálaráðherra hafi nýverið hitt kollega sinn í Noregi. Hann sagðist vita að vaxtamálið hafi verið þar á dagskrá. Hins vegar hafi ekki verið upplýst um efni og niðurstöður viðræðnanna. Sigmundur benti jafnframt á að Íslendingar hafi ekki beðið um lægri vexti og betri kjör á sínum tíma.

Steingrímur svaraði því til að ekki hafi verið biðröð eftir því að lána Íslendingum peninga eftir bankahrunið enda óvissan verið mikil. Á hinn bóginn hafi Færeyingar og Pólverjar sýnt Íslendingum veglyndi þegar erfiðleikar steðjuðu að enda hafi stjórnvöld þar verið fljót til að rétta hjálparhönd.

Steingrímur sagði vaxtakjörin á lánum Norðurlandanna ekki góð, 275 punkta álag væri býsna hátt. Af þeim sökum hafi verið leitað eftir því að breyta þeim til hins betra. Hann fékk vextina lækkaða niður um 25 punkta vorið 2009. Á hinn bóginn var því hafnað að geyma lántökuréttinn. Af þeim sökum var dregið á lánin og þau endurgreidd hratt til baka. Nú er búið að greiða helming lánanna til baka sem jafngildir afborgunum fram til ársins 2018.