Steinn Logi Björnsson núverandi framkvæmdastjóri Markaðs-og Sölusviðs Icelandair og stjórnarformaður Loftleiða Icelandic, hefur verið ráðinn nýr forstjóri Húsasmiðjunnar h.f.. Steinn Logi hefur störf 11. mars n.k. Húsasmiðjan er með eitt af 25 stærstu fyrirtækjum landsins og stæsta fyrirtækið í sölu byggingarvara. Veltan er um 14 milljarðar og starfsmenn um 600 talsins.

Steinn Logi er 45 ára gamall og hefur starfað hjá Flugleiðum og Icelandair í tæp 20 ár. Hann hóf störf hjá Flugleiðum 1985 og var aðstoðarmaður Forstjóra fyrstu 3 árin með ábyrgð á stefnumörkun, upplýsingamálum og erlendum verkefnum. Þá var hann svæðisstjóri Flugleiða erlendis í 8 ár, fyrst á meginlandi Evrópu og síðan í Bandaríkjunum. Steinn Logi er búinn að vera í núverandi starfi sem framkvæmdastjóri í 9 ár, eða síðan 1996.

Steinn Logi er með BA gráðu í Hagfræði frá Drew University í New Jersey í Bandaríkjunum og MBA gráðu frá Columbia University Business School í New York. Hann er kvæntur Önnu H. Pétursdóttur og eiga þau 3 börn, Stein Loga, Ylfu Ýr og Perlu.

?Mér líst mjög vel á að ganga til liðs við Húsasmiðjuna" segir Steinn Logi. ?Þetta er gríðarlega öflugt fyrirtæki í skemmtilegri atvinnugrein með starfsemi um allt land og mikla möguleika til vaxtar. Starfsfólkið er mjög gott og eigendur metnaðarfullir. Ég hlakka líka til að taka þátt í þeirri samkeppni sem þegar ríkir og er framundan. Slíkt heldur öllum á tánum og vel vakandi. Út úr slíku umhverfi spretta bestu lausnirnar" sagði Steinn Logi."

Skarphéðinn Berg Steinarsson stjórnarformaður Húsasmiðjunnar sagði það mikinn feng að fá Stein Loga til starfa. ?Við teljum að Steinn sé hárrétti maðurinn til að leiða fyrirtækið og takast á við þau verkefni og tækifæri sem framundan eru." Sagði Skarphéðinn.

Steinn Logi tekur við af Árna Haukssyni sem verið hefur forstjóri Húsasmiðjunnar sl. 3 ár. ?Ég kveð þetta skemmtilega starf með miklum söknuði, en taldi þessa tímasetningu rétta í ljósi þess að ég hef selt hlut minn í fyrirtækinu og nýir eigendur hafa tekið við. Ég hef þó fallist á að vera áfram í stjórn félagsins og hlakka til að halda áfram að fylgjast með rekstrinum þaðan" sagði Árni Hauksson fráfarandi forstjóri.