Stjórn Skipta hefur gengið frá ráðningu Steins Loga Björnssonar sem nýs forstjóra Skipta frá og með deginum í dag, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Úr tilkynningu:

„Steinn Logi Björnsson er 51 árs. Hann hefur starfað við stjórnunarráðgjöf hjá eigin fyrirtæki síðasta ár og setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja. Steinn Logi var forstjóri Húsasmiðjunnar frá 2005-2010 og starfaði þar áður hjá Flugleiðum/Icelandair um 20 ára skeið, síðustu 10 árin sem framkvæmdastjóri. Steinn Logi er með BA gáðu í hagfræði frá Drew University í New Jersey í Bandaríkjunum og MBA gráðu frá Columbia University í New York.

Skúli Valberg Ólafsson, stjórnarformaður Skipta og forstjóri Exista, móðurfélags Skipta: „Við erum sérstaklega ánægð með að hafa fengið Stein Loga til liðs við okkur á þessum tíma og hlökkum til samstarfsins við hann. Verkefnin framundan eru ærin við að laga fyrirtækið að breyttum aðstæðum í efnahagslífinu.“

Steinn Logi Björnsson:„Þetta er mikil áskorun og skemmtileg og ég hlakka til þeirra verkefna sem framundan eru. Það er ljóst að rekstrarfélög Skipta á Íslandi og erlendis eru öflug og bjóða upp á mikla möguleika. Verkefnið hlýtur að vera að hámarka arðsemi þeirra til hagsbóta fyrir eigendur og lánardrottna samstæðunnar og tryggja langtímafjármagnsskipan félagsins.“

Skipti hf. er móðurfélag Símans, Mílu, Skjásins og fleiri félaga hér á landi og erlendis. Hjá Skiptum eru nú um 100 starfsmenn sem starfa við stoð- og stjórnunarþjónustu fyrir dótturfélög Skipta. Skipti eru í 100% eigu Exista ehf.“